Félagi Össur!

Félagi Össur er pólitískur ástríðumaður og er að auki skemmtilegur stjórnmálamaður og húmoristi af bestu gerð, eins og ég hef áður haldið fram. Fáir stjórnmálamenn búa yfir þeim eiginleikum sem Össur prýða og þeir sem standa honum jafnfætis eru flestir í Vinstri grænum.

Auðvitað er það rétt hjá félaga utanríkisráðherra, að þingsályktunartillaga um að draga ESB umsókn til baka er óvenju vitlaus en um leið frábært tækifæri til að lífga upp á annars bragðdauft þing sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara.

Ef tillagan verður samþykkt þá getum við tekið hana fyrir aftur næsta haust og ef hún verður fellt – nú þá tökum við hana sömuleiðis aftur fyrir næsta haust og svo koll af kolli. Þetta gæti orðið skemmtilegt. Aðalatriðið er þó það að Össur Skarphéðinsson sé til staðar þegar þessi árvissi atburður á sér stað á þinginu því án hans má búast við tómum leiðindum.

Eftir stendur síðan sú spurning hvort félagi Össur eigi ekki meiri samleið með okkur í Vinstri grænum sökum pólitískrar gleði sinnar og skemmtilegheita sem mér sýnast ekki fá notið sín til fulls í kratahópnum. En þessu getur auðvitað enginn nema Össur svarað þó ég sé viss í minni sök hvað þetta varðar. Minn vandi felst hinsvegar í því að það hlustar enginn á mig.