Samstarf Íslands og AGS

Til að byrja með er ágætt að hafa eftirfarandi á hreinu. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var kallaður til hingað til lands af ríkisstjórn Geirs H. Haarde haustið 2008 í kjölfar efnahagshrunsins. Vinstri græn voru andsnúin þeirri ráðstöfun og töldu m.a. að frekar ætti að leita aðstoðar til vinaþjóða okkar á Norðurlöndunum áður en AGS væri kallaður til. Samstarf við AGS var hafið þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við stjórn landsins og unnið var að því að ná tökum á efnahagsmálunum í samstarfi við sjóðinn.

Saga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er ekki falleg og sjóðurinn hefur oft skilið eftir djúp sár í þeim löndum sem hann hefur komið að í efnahagserfiðleikum þeirra. Sjóðurinn er hvergi neinn aufúsugestur enda aldrei boðinn í heimsókn fyrr en allt er komið í kalda kol í efnahagsmálum líkt og var hér á landi haustið 2008. En hann er hérna, við erum í samstarfi við hann og við munum ljúka því samstarfi eins og til stóð. En það skiptir þá líka máli hvernig við högum því samstarfi.

Í samskiptum við AGS þurfum við íslendingar jafnt að sýna reisn og dug til að standa í fæturna þegar á reynir og þá ekki síður að reyna að fá það út úr samstarfinu sem við teljum okkur geta notað. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til að snýta það út úr sjóðnum sem við getum og nýta okkur sjóðinn til hins ítrasta. Ég tel að best fari á því að samskipti okkar við AGS séu eins opin og gegnsæ og mögulegt er. Við höfum sjálf ekkert að fela og samstarf sem byggist á einhverju pukri verður aldrei neinum til góðs. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur unnið nokkur gögn um efnahagsmál á Íslandi bæði að beiðni íslenskra stjórnvalda og að eigin frumkvæði. Er þar helst að minnast tillagna AGS í skattamálum sem mikið voru ræddar þegar þær komu fram í sumar. En önnur gögn hafa ekki verið birt þau vitað sé að þau séu til en það þyrfti auðvitað að gera eftir því sem kostur er. Nefndir þingsins eiga að vera ófeimnar að kalla fulltrúa sjóðsins til fundar við sig til skrafs og ráðagerða og eiga samskipti við starfsfólk sjóðsins þau mál sem að samstarfinu snýr. Við eigum hvorki að reyna að leyna samskiptum okkar við sjóðinn eða fela þau á nokkurn hátt.

Það sem ég er að segja er einfaldlega þetta: Ég vil að við nýtum okkur samstarfið við AGS eins og við mögulega getum. Aðeins þannig verður það okkur til gagns inn í framtíðina. Það eigum við að gera með það eitt að markmiði að auðvelda þjóðinni leiðina úr efnahagserfiðleikunum – en á okkar forsendum. Á endanum erum það við sjálf sem ákveðum okkar eigin framtíð en ekki aðrir.

En ég mun hinsvegar fagna vel og innilega þegar samstarfinu sem Geir H. Haarde og félagar tóku upp við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn lýkur. Það er og verður ólíkt skemmtilegra að vera í liðinu sem fylgir sjóðnum úr landi en því sem bauð honum hingað heim.