Markviss stefna - kemur ekki á óvart

Talsverð umræða hefur verið um erlenda eignaraðild í sjávarútvegi að undanförnu. Látið er sem eitthvað nýtt hafi gerst í stjórnsýslunni sem opnað hafi fyrir möguleika erlendra fjárfesta til að eignast hlut í íslenskum sjávarútvegi. Fátt er fjarri sanni. Í umræðum á Alþingi um málið haustið 2000 hafði Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra sjálfstæðisflokksins m.a. þetta að segja um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi: „Herra forseti. Vegna þess að ummæli mín um erlendar fjárfestingar hafa verið gerð að umræðuefni og dregið hefur verið fram að ég hafi sagt mismunandi hluti á mismunandi tímum þá er það út af fyrir sig rétt. Ég var að reyna að gera grein fyrir því áðan að þetta er mál sem ég hef verið að skoða undanfarnar vikur og jafnvel má segja undanfarna mánuði og haft ástæðu til að tjá mig um það í fjölmiðlum á undanförnum vikum. Í millitíðinni fór fram umræða þar sem upplýsingar komu fram um það hvernig staðan væri. Niðurstaða mín eftir þá athugun og eftir þá umræðu er sú að við þurfum að láta reyna betur á það hvort ástæða sé til þess að breyta þessu, hvort þetta hamli okkur í því að fara í þá útrás erlendis sem við viljum fara í.“

Niðurstaða ráðherra sjálfstæðisflokksins af þessari könnu var síðan þessi:

„Ég hef hins vegar talið ástæðu til að fjalla um þetta mál [erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi] í fjölmiðlum að undanförnu og reyndar verið að gera athugun á því síðustu vikurnar, jafnvel síðustu mánuðina að segja má, og sú athugun hefur leitt í ljós að óbeint geta erlendir aðilar átt allt að 49,9% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki sem stundar bæði útgerð og frumvinnslu. Þetta er mjög í takt við það sem er í þeim löndum þar sem við höfum verið að fjárfesta, t.d. Chile og Mexíkó þar sem þessi mörk eru líka 49,9%.“

M.ö.o. þá er ekki hægt að ráða annað í málflutning ráðherrans en að honum finnst það í góðu lagi að erlendir aðilar geti eignast allt að 49,9% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það hlýtur því að sæta furðu að þeir þingmenn sjálfstæðisflokksins þá sátu á þingi og sitja enn, láti sem þeim komi þetta allt á óvart í dag. Hissastur allra virðist þó vera annar fyrrum sjávarútvegsráðherra sjálfstæðisflokksins, Einar Kr. Guðfinnsson. Ég vil samt ekki vera að böggast mikið í honum út af þessu, trúi því sem hann segir um vilja sinn í þessu máli. En stjórnarstefna fyrri ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og framsóknar er skýr. Hún heimilaði fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi upp að 49,9%. Það var ekkert óvart heldur markviss stefna eins og fram kemur í máli Árna Mathiesen.

Til gamans má benda á að það fyrirtæki sem mest hefur verið í umræðunni og nú er í 43% eigu kínversks fyrirtækis gerir út þetta skip hér og hefur yfir þessum aflaheimildum að ráða þetta fiskveiðiárið. Arður af íslenskum sjávarútvegi er því þegar farin að renna til erlendra fjárfesta, í þessu tilfelli kínverskra.