Afsökunarbeiðni? Já takk, en ekki frá Gylfa

Gylfi Magnússon var á sínum tíma fyrir verulegu aðkasti frá fyrri stjórnvöldum vegna gagnrýni sinnar á efnahagskerfið sem hann taldi vera á leiðinni í þrot. Við munum hvernig það fór. Svo langt gengu stjórnvöld fram gegn Gylfa að sérstökum efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Geirs H. Haarde var falið að setja ofan í við Gylfa sem þá var starfsmaður Háskóla Íslands og nánast reynt að beita hann þvingunum til að láta af gagnrýni sinni.

Efnahagsráðgjafinn heitir Tryggvi Þór Herbertsson og er nú þingmaður sjálfstæðisflokksins. Þeir höfðust ólíkt að þeir Tryggvi Þór og Gylfi Magnússon á þeim tíma og gera enn. Gylfi Magnússon var einn af fáum fræðimönnum sem á sínum tíma gengu heilir fram í athugasemdum og gagnrýni á stjórn efnahagsmála og vöruðu við því sem þeir þóttust sjá bíða í framtíðinni og opinberaðist á endanum í hinu fullkomna efnahagshruni hægrimanna á Íslandi. Almenningur kallaði þá eftir fagmennsku við stjórn landsins en fagleg stjórnsýsla hafði ekki tíðkast hér á landi um ár og áratugi. Almenningur vildi ópólitíska ráðherra, með fagþekkingu á efnahagsmálum til samstarfs við stjórnmálamennina sem höfðu orðið fyrir miklu álitshnekki. Gylfi var þar ofarlega á blaði og af skiljanlegum ástæðum bar íslenskur almenningur traust til hans og því trausti hefur hann ekki brugðist.

Nú vill svo til að stjórnarandstaðan á Alþingi kallar eftir afsökunarbeiðni frá Gylfa Magnússyni vegna álits lögfræðistofunnar Lex þar sem fram kemur sú skoðun lögmanna stofunnar að lán tryggð í erlendri mynt væru líklega ólögleg. Áköfustu stjórnarandstæðingar gefa jafnvel í skyn að Gylfi eigi að láta af ráðherraembætti. Gylfa er gefið að sök að hafa ekki sagt frá lögfræðiáliti Lex-stofunnar sem unnið var fyrir Seðlabanka Íslands, áliti sem hann reyndar vissi ekki um.

Skipti lögfræðiálit Lex-manna sköpum í þessu máli?? Hefði það breytti sögunni ef Seðlabankinn hefði birt lögfræðiálitið á sínum tíma eða sent Gylfa Magnússyni það til aflestrar?? Ég held ekki. Lögmenn deildu um gildi þeirra lánasamninga sem rætt er um og töldu þá ýmist löglega eða ólöglega og  því hefði það nákvæmlega engu breytt hvert álit Lex manna var eða hvort það hefði verið birt yfir höfuð. Lögmenn Lex-stofunnar eru ekki dómstóll, þaðan af síður Seðlabankinn og enn síður Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Það hefði verið sama hve mörgum lögfræðiálitum hefði verið safnað saman af þessu tilefni, dómstólar hefðu að lokum kveðið upp sinn dóm eins og þeir hafa þegar gert.

Þeir sem eiga að biðjast afsökunar og þeir sem eiga að hugsa sinn gang eru fyrst og síðast þeir sem skópu það efnahagskerfi hér á landi sem að lokum féll um sjálft sig og reyndist að auki að stórum hluta ólöglegt eins og dómur Hæstaréttar í gengistryggðu lánunum ber vitni um. Að ekki sé minnst á siðferðilega þátt þess kerfis en um þá hlið málsins er ítarlega fjallað í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Undir forystu sjálfstæðisflokksins var komið á efnahagskerfi sem laut engum lögmálum, virti engin siðferðismörk og lét sig lög og reglur engu skipta. Á því bera þeir stjórnmálaflokkar mesta ábyrgð sem skópu það og það eru talsmenn þeirra sem eiga að biðjast afsökunar á misferlinu, lögbrotunum og öllum þeim skelfingum sem íslenskur almenningur hefur orðið fyrir af þeirra sökum.

Það færi vel á því að fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde leiddi hópinn og bæðist fyrstur afsökunar á framgöngu sinni á þessum vettvangi. Hinir geta svo komir prúðir í röð á eftir honum.

Það er hinsvegar langt í að Gylfi Magnússin þurfi að biðjast afsökunar á sínum störfum. Hann hefur verið góður ráðherra, sinnt starfi sínu af elju og fagmennsku og komið á mörgum góðum umbótum á því gjörspillta kerfi sem hér var, áður en hann settist í ríkisstjórn. Gylfi Magnússon verður vonandi ráðherra áfram eins lengi og hann kýs sjálfur að vera. Þjóðin á það svo sannarlega skilið eftir það sem á undan er gengið.