Ný upplifun

Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að veiða fisk á stöng, flugustöng. Þetta hef ég gert síðan ég man eftir mér sem barn á bryggjunum í Ólafsfirði, fjörunni og Kleifarhorninu. Þá var fluguveiðin reyndar ekki komin til sögunnar heldur var það spúnn og maðkur sem gerði veiðina að því sem hún var. Síðan fór ég að veiða á flugu og heillaðist algjörlega af þeim veiðiskap og hef haldið mig við fluguna síðan. Í síðustu viku fór ég ásamt fleirum til veiða í Fnjóská hér nyrðra þar sem ég hef aldrei veitt áður. 
Hópurinn var vel samansettur af góðum veiðimönnum og skemmtilegum félögum sem er ekki síður mikilvægur þáttur í veiðiferðum en veiðin sjálf. Í þessari ferð fékk ég minn fyrsta flugulax enda var þetta fyrsta laxveiðiferðin á ferlinum. Fram til þessa hafði ég stundað bleikju og urriðaveiði af eins miklum móð og mér var fært, en lax hafði ég aldrei veitt á flugu áður. Í ferðinni naut ég leiðsagnar Sigmundar Ófeigssonar eins besta veiðimanns landsins sem leiddi mig um ánna sem hann þekkir svo vel og kynnti hana fyrir mér. Við lönduðum nokkrum fallegum fiskum auk þess sem við settum eina 10-12 punda gullfallega hrygnu í klak. Ég hafði fram til þessa aðeins sleppt smáum fiski en drepið allt annað sem á land hafði komið og sá mig ekki í anda sleppa ætum fiski. En það gerði ég sem sagt í þessari ferð að áeggjan Sigmundar veiðimanns. Og viti menn – það fylgdi því alveg ný tilfinning sem ég átti ekki von á og ég er búinn að vera með hugann við hrygnuna síðan. Hvernig hún hafði það og hvernig henni muni reiða af. Hvort það muni koma mörg seiði undan henni sem síðar meir verða fyrir mér eða öðrum veiði mönnum í þessari fallegu á og hvort einhver muni kannski í framtíðinni setja 10 punda hrygnu undan „minni hrygnu“ í klak! Þegar upp var staðið þá reyndist þetta vera toppurinn á ferðinni. Ég fór nú samt heim með einhverja fiska og iðrast einskiss í því sambandi.
Á myndinni hér að ofan má sjá hrygnuna góðu á leið í klak-kassann við Fnjóská.