Í ályktun sem samþykkt var á kirkjuþingi á dögunum segir að kirkjan samþykki ekki 9% niðurskurðarkröfu sem til þjóðkirkjunnar eru gerðar. Kirkjuþingið samþykki hinsvegar 5% niðurskurð - með skilyrðum þó. Jafnframt segir í ályktun kirkjuþings að niðurskurður fjárframlaga til þjóðkirkjunnar skuli gerður með fyrirvara um samþykki kirkjuþings og gildi einungis fyrir árið 2011.
Þetta fannst mér merkileg ályktun í meira lagi svo ekki sé nú meira sagt. Ísland glímir nú við efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfar 18 ára hastarlegrar stjórnarstefnu sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans. Afleiðingar blasa við hvert sem litið er. Samdráttur í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga, atvinnuleysi í nýjum hæðum, erfiðleikar í rekstri fyrirtækja og almenningur skuldsettari en nokkru sinni fyrr. Það lætur nærri að ríkissjóður sé rekinn með nærri 300.000.000 króna halla (þrjú hundruð milljónir) á hverjum einasta degi ársins. Það vantaði u.þ.b. fimmtu hverja krónu í rekstur ríkisins þegar á reyndi. Hátt í 20% af útgjöldum ríkisins fer í að greiða vexti af skuldum og það hlutfall mun hækka hratt ef skuldirnar lækka ekki fljótt. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að draga úr útgjöldum og laga þau að raunverulegri getu ríkisins. Um þetta þarf ekkert að semja, hvorki við kirkjuna né aðra. Efnahagshrunið er ekki samningsatriði heldur blákaldur raunveruleiki sem allir þurfa að glíma við, líka kirkjan. Undan því verður einfaldlega ekki vikist. Mér er hlýtt til kirkjunnar og geri mér ágætlega grein fyrir stöðu hennar í samfélaginu. Víða um land er starfsemi kirkjunnar kjölfesta félagslegrar þjónustu í fámennum sveitarfélögum. Mikill samdráttur í útgjöldum til þjóðkirkjunnar gæti því komið illa niður á slíkri starfsemi en þarf þess ekki endilega. Í kjölfar samdráttar í framlögum til Þjóðkirkjunnar þarf kirkjan því að forgangsraða í starfsemi sinni, rétt eins og aðrir. Það er því að stórum hluta til á hendi kirkjunnar manna hvernig samdráttur í tekjum kirkjunnar í kjölfar efnahagshrunsins kemur niður á starfsemi hennar.