Lexía til að læra af

Skipan Runólfs Ágústssonar sem umboðsmanns skuldara er dæmi um vonda stjórnsýslu sem svo algeng var á valdatíma sjálfstæðisflokksins. Sá mikli valdaflokkur raðaði árum og áratugum saman „sínu fólki“ í allar mögulegar og ómögulegar stöður sem fengur þótti í fyrir flokkinn að ráða yfir. Og þær voru margar. Sem dæmi um þetta má nefna Guðmund Bjarnason, fyrrverandi ráðherra framsóknarflokksins sem gerður var að forstjóra Íbúðalánasjóðs, Davíð Oddsson fyrrverandi formann sjálfstæðisflokksins sem gerður var að seðlabankastjóra með skelfilegum afleiðingum, Finn Ingólfsson fyrrum ráðherra framsóknar sem sömuleiðis var seðlabankastjóri áður en framsóknarráðherrar færði honum banka á silfurfati í einkavæðingarvitleysunni. Svo er vert að muna eftir skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar í hæstarétt, sem og Þorsteins Davíðssonar (Oddssonar) í stól héraðsdómara þrátt fyrir að hafa langt því frá verið metin hæfastur umsækenda og að ógleymdum Baldri Guðlaugssyni sem gengdi stöðu ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu í skjóli sjálfstæðisflokksins þar til hann hrökklaðist þaðan út vegna spillingarmála. Það er af nógu að taka ef út í það er farið. Aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir síðan Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að spilling og vanræksla hafi verið við skipan héraðsdómara af hálfu fyrrverandi ráðherra sjálfstæðisflokksins, svo dæmi sé tekið. Við þekkjum mörg slík dæmi úr fortíðinni sem óþarfi er að gleyma. Almenningur lét þetta yfir sig ganga á þeim tíma, nánast möglunarlaust. Mótmæli gegn spillingunni voru ekki hávær. Hversvegna? Þetta er sem betur fer að breytast og þó fyrr hefði verið.

Nú eru hinsvegar breyttir tímar. Sjálfstæðisflokkurinn með sitt vonda og spillta vinnulag er farin frá völdum og starfhættir hans eiga að heyra sögunni til. Þess vegna olli skipan Runólf Ágústssonar okkur vonbrigðum. Hún minnir okkur á þá tíma sem að lokum leiddi til siðferðilegs hruns í opinberri stjórnsýslu og vanstrausts á stjórnmálum – skiljanlega.

Skipan umboðsmanns skuldara hefur nú fengið farsæla lausn og lexían sem við eigum að læra af því klúðri öllu saman er sú að vanda okkur betur í framtíðinni. Við höfum ekki efni á að sóa hæfileikum með því að ganga framhjá þeim sem yfir þeim búa og láta aðra hagsmuni ráða för við ráðningar í opinberar stöður.

Síðast en ekki síst er þetta mál alvarleg áminning um það sem aldrei má aftur gerast á Íslandi og nauðsyn þess að halda sjálfstæðisflokknum sem lengst frá völdum. Aðeins þannig getum við sem þjóð tileinkað okkur ný og heilbrigð vinnubrögð og byggt upp traust á stjórnmálunum sem okkur er nauðsynlegt er að gera.