Pólitísk leiðindi

Síðustu fjörutíu árin eða svo hef ég haft brennandi áhuga á stjórnmálum. En nú er ég við það að missa áhugann. Ég held ég viti hvers vegna.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur siglir nokkuð lygnan sjó. Það ríkir góð stemning innan stjórnarflokkanna og Katrínu virðist fara það vel að leiða hópinn. Það ríkir breið þverpólitísk sátt meðal kjósenda með ríkisstjórnina eins og ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum. Þjóðinni líður vel með ríkisstjórnina sína.
Það er hins vegar annað yfirbragð yfir stjórnarandstöðunni. Hún er ómarkviss í störfum sínum, sundruð og ósamstíga. Það er engan veginn hægt að átta sig á því á hvaða leið hún er og það er enginn sem leiðir hana áfram. Stjórnarandstaðan er mest í dægurþrasinu en lætur stærri málin eiga sig (eins og ekki sé nú nóg af þeim) sem undirstrikar pólitíska smæð hennar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki enn áttað sig á því að ánægja kjósenda með ríkisstjórnina er ekki síst vegna þess að flestir voru komnir með nóg af pólitískum hávaða af litlu tilefni. Svo virkar stjórnarandstaðan í heild sinni ótrúlega leiðinlegur og fýlugjarn hópur. Ég finn stundum til í pólitíkinni við að fylgjast með störfum andstöðunnar.
Það er vegna stjórnarandstöðunnar sem dregið hefur hratt úr pólitískum áhuga mínum.
Kannski fer maður bara í golfið eins og allir hinir?