Það er ánægjulegt að sjá hve stór hluti þjóðarinnar styður ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þrátt fyrir að stuðningur við stjórnina dragist örlítið saman lætur nærri að þrír af hverjum fjórum kjósendum styðji hana. Samkvæmt því er u.þ.b. fimmti hver kjósandi stjórnarandstöðunnar í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Vandræðamál í kringum dómsmálaráðherra virðast ekki hafa mikil áhrif á vinsældir stjórnarinnar þrátt fyrir að eðlilega sé hamast á því máli dag eftir dag af stjórnarandstöðunni. Það kann að stafa af því að kjósendum er hreinlega sama, málflutningur stjórnarandstöðunnar þykir ótrúverðugur eða að kjósendur meti það einfaldlega þannig að mikilvægara sé að standa með stjórninni frekar en að láta hana gjalda fyrir vandræðaganginn.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur breiða skírskotun til stórs hóps fólks úr öllum flokkum. Það er einmitt þannig stjórn sem við þurftum á að halda núna.
Þess vegna nýtur hún svo mikils stuðnings þvert á flokka.