Árið 2017 var fjórða árið í sögunni þar sem engin banaslys urðu á sjó við Ísland og slysum á sjó fækkaði um 37% frá árinu á undan.
Það er enginn vafi á því að Slysavarnarskóli sjómanna hefur skipt sköpum við að draga úr slysum á sjó síðustu áratugina. Það má þakka skólanum og starfsfólki hans fyrir þá miklu viðhorfsbreytingu sem orðið hefur hjá sjómönnum og útgerðarmönnum á öryggismálum um borð í skipum. Flestar ef ekki allar stærri útgerðir eru nú með sérstaka öryggisfulltrúa á sínum vegum sem í samstarfi við áhafnir vinna stöðugt að því að gera skipin öruggari og tryggari vinnustaði. Skip eru einnig stærri og betur búin en áður og aðbúnaður áhafnar sömuleiðis allt annar. Allt þetta og margt fleira hjálpast að við að draga úr slysum á sjó með þeim árangri sem nú blasir við.
Öryggismál hafa alla tíð verið sjómönnum og aðstandendum þeirra mikið hjartans mál, jafnt hér við land sem annars staðar í veröldinni. Fræg er barátta kvenna í Hull fyrir öryggismálum og bættum aðbúnaði sjómanna á sínum tíma. Hér má lesa um það mál ef einhver hefur áhuga.
Það ber að þakka öllum sem unnið hafa að öryggismálum sjómanna fyrir þann árangur sem náðst hefur.
Takk fyrir mig!
Myndina tók ég af Arnari HU-1 fyrir allt of mörgum árum á Austfjarðamiðum.