Fyrir stuttu gaf Reykjavíkurborg út bæklinginn „Kynlegar tölur“. Þar kemur m.a. fram að 40 einstaklingar sviptu sig lífi á síðasta ári, þar af 36 karlar. Þetta hefur ekki fengið mikla umfjöllun, ekkert frekar en oft áður. Tíðni sjálfsvíga á Íslandi hefur lengi verið með því hæsta í heiminum (sjá t.d. hér, hér og hér ) og er því miður enn.
Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri sem rannsakað hefur ofbeldi gegn drengjum og körlum, hélt erindi um þau mál á ráðstefnu um nauðgun sem haldin var í Reykjavík á dögunum. Rætt var við Sigrúnu um þessi mál í Vikulokunum síðastliðinn laugardag (byrjar á 19. mínútu). Það var sláandi viðtal. Einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Helmingur karlfanga hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Rekja má stóran hluta sjálfsvíga drengja til kynferðisofbeldis. Mun fleiri karlar svipta sig lífi en deyja í umferðarslysum hér á landi. Sjálfsvíg er ein helsta dánarorsök ungra karla á Íslandi.
Sigrún sagði frá því í Vikulokunum að ákveðnir hópar í samfélaginu þyldu það einhverra hluta vegna mjög illa að hún ræddi þessi mál, þ.e. um ofbeldi gegn drengjum og körlum. Kannski finnst þeim að umræðunni um ofbeldi gegn konum sé ógnað með því að ræða einnig um ofbeldi gegn körlum?
Af hverju missum við alla þessa ungu menn í sjálfsvígum? - spyr Sigrún.
Þetta er risastór spurning.