Íslendingar og Færeyingar hafa ekki náð saman um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum landanna á árinu 2018. Það er bagalegt að mörgu leyti fyrir báða aðila. Færeyingar hafa lengi haft nokkuð greiðan aðgang að íslenskri lögsögu og talsverðar veiðiheimildir að auki. Á síðasta ári höfðu þeir sem dæmi veiðiheimildir í botnfiski upp á nærri 6 þúsund tonn, þar af 2.400 tonn af þorski og auk þess heimildir til að veiða allt að 30 þúsund tonn af loðnu. Íslendingar hafa á móti fengið að veiða eigin heimildir úr deilistofnum í færeyskri lögsögu, t.d. kolmunna og síld. Færeyingar hafa hins vegar ekki látið neitt af sínum veiðiheimildum af hendi til Íslendinga. Færeyingar hafa nú krafist aukinna veiðiheimilda frá Íslandi án þess að láta nokkuð á móti sem gengur auðvitað ekki. Það var því að mínu mati rétt ákvörðun hjá Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra að stöðva veiðar Færeyinga við Ísland á meðan ósamið er á milli þjóðanna um þessi mál.
Vonandi ná svo þessar tvær vinaþjóðir að landa samningi sín á milli sem fyrst sem báðar geti vel við unað.