Stjórnarandstaðan fellur á fyrsta prófinu

"Fjárlagafrumvarp fyrir næsta fjárlagaár skal leggja fram á fyrsta fundi haustþings, sbr. 42. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta má lesa í 25.gr. laga um þingsköp Alþingis. Þetta þýðir í raun að ekki er hægt að kalla þing saman nema fjárlög séu tilbúin til umræðu. Það var því fullkomlega rökrétt af Katrínu Jakobsdóttur og í anda þess sem hún hefur áður talað, að bjóða stjórnarandstöðunni upp á að kalla þing saman, leggja fram það fjárlagafrumvarp sem þegar er tilbúið og gera svo á því nauðsynlegar breytingar í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu. Þannig hefði þingið fengið rýmri tíma til að ræða önnur brýn mál og afgreiða eftir þörfum. Tillaga Katrínar var því öðrum þræði lögð fram til að auka vægi þingsins og einnig tilboð um samstarf við stjórnarandstöðuna um gerð fjárlaga næsta árs.
Þessu hafnaði stjórnarandstaðan umhugsunarlaust og féll þar með á fyrsta prófinu sem fyrir þau var lagt um bætt vinnubrögð í þinginu.