Ég var svo lánsamur að fá að kynnast Jóhönnu Sigurðardóttur og starfa með henni í fjögur ár. Jóhanna er einn af allra öflugustu stjórnmálamönnum sem við höfum átt, ef ekki sá öflugasti. Ég hef til þessa ekki kynnst jafn gegnheilum, ósérhlífnum og þrautseigum stjórnmálamanni. Ólíkt því sem margir halda er Jóhanna mikill húmoristi og skemmtileg í samstarfi en að sama skapi grjóthörð og fylgin sér þegar þess þarf með. Það var ekkert grín að fá hana gegn sér og maður gerði það ekki að gamni sínu enda var það fyrirfram tapaður slagur. Ég kann af því sögur sem ég kannski segi síðar.
Mér leiddist það hvernig margir samflokksmenn hennar snerust gegn henni sem forsætisráðherra á sínum tíma, jafnvel þeir hinir sömu sem grátbáðu hana um að taka við flokknum og bjarga honum úr Hrunadansinum með sjálfstæðisflokknum veturinn 2008/2009. Kannski reyndumst við í Vinstri græn henni betur þegar upp var staðið, a.m.k. flest okkar.
Mér leiðast ævisögur og svo sjaldan sem ég byrja á slíkum klára ég þær yfirleitt ekki. Ég er samt að hugsa um að lesa sögu Jóhönnu yfir jólin, ef ekki fyrr.
Hennar tími kom svo sannarlega sem betur fer fyrir okkur öll.