Stutt samantekt um Landsdóm

Haustið 2008 var lagt fram frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Fyrsti flutningsmaður var Sturla Böðvarsson, þáverandi forseti Alþingis, og meðflutningsmenn hans voru formenn allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Frumvarpið varð að lögum 12. desember 2008, samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í fyrstu grein laganna segir m.a. um markmið rannsóknarinnar: „Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.“
Á grundvelli þessara laga var Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sett á fót og skilaði hún skýrslu sinni í apríl 2010. Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar (bls. 46) var að þrír ráðherrar „ … hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 í aðdraganda falls íslensku bankanna með því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna.“
Þverpólitísk þingmannanefnd undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, fjallaði um niðurstöður RNA og lagði meirihluti hennar m.a. til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir fyrir ýmis afglöp í störfum sínum. Alþingi samþykkti í kostulegri atkvæðagreiðslu að ákæra einn af þessum fjórum, Geir H. Haarde.
Í kjölfarið var Landsdómur kallaður saman í fyrsta sinn. Landsdómur dæmdi Geir sekan um eitt ákæruatriði af þeim fjórum sem hann var ákærður fyrir.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Geir H. Haarde hafi fengið sanngjarna og réttláta meðferð  í þessu máli og sýknaði íslenska ríkið af kærum Geirs um að málsmeðferðin á hendur honum hafi verið á pólitískum rótum reist og Landsdómur óvilhallur.