Auðvitað verður flokksráð Vinstri grænna ekki kallað saman nema formaður flokksins telji sig hafa náð góðum málefnasamningi sem hún telur þess virði að mæla með. Þó það nú væri!
Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig Katrín Jakobsdóttir hefur stýrt stjórnarmyndunarviðræðunum. Það er augljóst að hún ætlar að byggja vel undir þann málefnasamning sem er í smíðum og afla honum fylgis jafnt innan síns eigin flokks sem utan. Móðurinn er að mestu runninn af fólki innan Vinstri grænna og gagnrýnisraddirnar hafa að mestu hljóðnað. Flestir hafa tekið þá skynsamlegu afstöðu að bíða eftir að Katrín kynni málefnasamning sem hægt verður að taka afstöðu til. Að frumkvæði Katrínar hafa fjölmargir aðilar verið boðaðir til fundar við formennina þrjá, má þar nefna ASÍ, fulltrúa Landspítalans, eldri borgara, öryrkja og fleiri. Þetta er nýjung við myndun ríkisstjórnar hér á landi og afar klókt að gera. Með þessu fá formenn stjórnmálaflokkanna ekki aðeins að heyra afstöðu þessara aðila til mála sem þeim tengjast heldur og ekki síður fá þessir aðilar að hlýða á sjónarmið formannanna og hvað gæti verið í vændum hvað þetta varðar. Með þessu eru byggðar upp jákvæðar væntingar af beggja hálfu um samstarf og sameiginleg raunhæf markmið til næstu ára. Þetta leiðir til þess að það verður þegar búið að koma mörgum mikilvægum málum í farveg áður en ríkisstjórnin tekur til starfa sem aftur verður til þess að hún mun njóta velvildar og stuðnings í samfélaginu strax í upphafi.
Á sama tíma og Katrín Jakobsdóttir er að springa út sem stjórnmálamaður auka aðrir í smæð sína með því að hnýta í forsetann.
Ólíkt hafast þau að.