Tveir þingmenn úr leik?

Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson eru mótfallnir því að hreyfingin fari í viðræður við sjálfstæðisflokk og framsókn um myndun ríkisstjórnar. Það vekur athygli að annað þeirra segist hafa knúið fram atkvæðagreiðslu um málið í þingflokki Vg. Það virðist hafa verið gert til þess eins að opinbera ágreining innan þingflokksins um tillögu formannsins. Það er líka umhugsunarvert að afstaða þeirra byggist ekki á málefnasamningi heldur á afstöðu til þeirra flokka sem ræða á við. Þetta þýðir að þau tvö hafa þegar lagst gegn ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ef af henni yrði. Það gera þau ekki á forsendum málefnasamnings heldur einfaldlega vegna þess að þau vilja ekki að sú ríkisstjórn sem Katrín vill reyna að mynda komist á koppinn.
Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að ætla að þau Rósa og Andrés muni fara í harða stjórnarandstöðu ef Katrínu tekst að mynda ríkisstjórn. En miðað við skýringar þeirra er samt ekki annað hægt að skilja en þau tvö hafi sagt sig frá hópnum í komandi stjórnarmyndunnarviðræðum og ekki síður ef til stjórnarsamstarfs kemur.
Þetta undirstrikar vel hversu mikilvægt það er fyrir ríkisstjórn að vera með rúman og traustan meirihluta, sér í lagi þegar um fjölflokkastjórn er að ræða.