Sterk staða Katrínar

Baldur Þórhallsson er að öllu jöfnu glöggur stjórnmálaskýrandi sem gaman er að fylgjast með. Það kann að reynast rétt að staða Katrínar Jakobsdóttur muni veikjast ef slitnar upp úr samtali hennar við sjálfstæðis- og framsóknarflokk. En það ræðst þó mest af ástæðunni fyrir því, þ.e. á hverju myndi stranda. Katrín gerir sér vel grein fyrir því hvað Vinstri græn þurfa til að halda þessum viðræðum áfram og láta reyna á stjórnarmyndun. Það er ástæðulaust að ætla að þingflokkurinn fylgi henni ekki að málum enda hafa engar slíkar efasemdir komið upp.
Vinstri græn munu ljúka þessum viðræðum annaðhvort með því að ná fram ásættanlegum stjórnarsáttmála eða þá vegna þess að það tókst ekki. Hvort sem yrði myndi staða Katrínar sem stjórnmálamanns að mínu mati frekar styrkjast en veikjast.
​Staða Katrínar er sterkari en ætla mætti miðað við umræðuna síðustu daga. Það á jafnt við innan Vinstri grænna sem og í viðræðum við aðra flokka.