Ég treysti mínu fólki

Kjósendur buðu stjórnmálamönnum ekki upp á marga góða valkosti við ríkisstjórnarmyndun. Stjórnmálamenn einstakra flokka hafa síðan sjálfir takmarkað þá valkosti mjög með vanhugsuðum yfirlýsingum og skilyrðum. Eftir stendur enginn besti kostur eða sjálfsagt val fyrir nokkurn þeirra átta flokka sem eiga menn á þingi. Úr því þarf að vinna.
Þrír flokkar hafa nú þegar myndað minnihluta á þingi. Það gerðu þeir áður en ljóst yrði hvort formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar hæfust. Það verður að skrifast á pólitískt reynsluleysi formanna þessara flokka. Ekki er enn vitað hvort samtöl Vinstri grænna, sjálfstæðisflokks og framsóknar muni leiða til þess að þessir flokkar ákveði að reyna myndun ríkisstjórnar. Það verður þó að teljast líklegra en hitt að á það verði látið reyna í fullri alvöru, ekki síst þar sem aðrir kostir hafa verið útilokaðir, m.a. með myndun minnihlutans í gær. Það er erfitt að sjá hvernig þeir sem það gerðu ætla að bakka út úr því.
Vinstri græn eru að mínu mati að spila eins vel og mögulegt er úr þeim spilum sem þau fengu á hendi í kosningunum. Það mun svo fljótlega koma í ljós hvað út úr því kemur.
Ég treysti mínu fólki.