Umhugsunarefni

Fyrir sléttum mánuði birti ég þennan pistil hér á síðunni. Nú liggur það fyrir að loddararnir eru sigurvegarar kosninganna með samtals 11 þingmenn. Þeir munu vafalaust snúa bökum saman nú að afloknum kosningum til að auka vægi sitt.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði næstum fjórðungi þingflokksins og uppskar næst verstu kosningaúrslit í sögu flokksins.
Framsókn hélt sínu sem er endurtekin versta útkoma í sögu þess flokks.
Samfylkingin tvöfaldaði ríflega þingmannafjölda sinn og fór þannig úr verstu stöðu flokksins í þá næst verstu frá stofnun.
Minn flokkur, Vinstri græn, er í smá krísu. Eftir að hafa keyrt kosningabaráttuna nær eingöngu á ágæti formannsins, jók flokkurinn fylgi sitt aðeins um rétt tæpt 1% frá síðustu kosningum og var reyndar aðeins örfáum atkvæðum frá því að tapa manni í kjördæmi formannsins. Vinstri græn bættu við sig einum þingmanni, hinum ágæta Ólafi Þór Gunnarssyni, 54 ára gömlum karlmanni úr Kópavogi. Flokkurinn dalar í báðum norðurkjördæmunum en bæta örlitlu við sig á SV horninu. Málefnalega séð fengu stefnumál Vinstri grænna ekki þann hljómgrunn meðal kjósenda sem vonast var eftir hvernig sem á því stendur. Fyrir okkur Vinstri græn eru úrslitin því talsverð vonbrigði og það er erfitt að sjá fyrir sér að flokkurinn muni leiða næstu ríkisstjórn. Umboð hreyfingarinnar til myndunar ríkisstjórnar er einnig afar veikt og takmarkað af hálfu kjósenda flokksins. Það er samt ekki rétt að útiloka neitt strax í þeim efnum.
Líklegasta niðurstaðan er sú að mínu mati að Bjarni Benediktsson muni leiða næstu ríkisstjórn í samstarfi við framsóknarflokk og loddara.
Heilt yfir er niðustaða kosninganna mikið umhugsunarefni.