Furðulegt viðtal við fræðimannn um skattamál

Ég varð eiginlega furðu lostinn að lesa þetta viðtal við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði, í dag. Svo ég las það aftur og varð þá til viðbótar fyrir vonbrigðum. Ég hef lesið margt af því sem Ásgeir hefur skrifað um efnahagsmál í gegnum árin og stundum þótt til þess koma sem hann hefur látið frá sér. En það er tæplega hægt að hugsa sér að þarna tali hann sem fræðimaður með þekkingu á skattamálum. Er honum t.d. ókunnugt um að við skattlagningu er ekki aðeins horft til tekjuöflunar heldur og ekki síður jöfnunar, jafnræðis og sanngirnis? Er honum ókunnugt um að millitekjuhópar og fólk með þaðan af lægri tekjur greiðir nú þegar hlutfallslega mest til samfélagsins? Veit hann kannski ekki að skattar á þessa hópa hafa verið hækkaðir um vel á annan tug milljarða á síðustu fjórum árum á meðan tekjuhærri og efnameiri hafa fengið sambærilega upphæð til lækkunar á sínum sköttum? Veit félagi Ásgeir ekki að stóriðjufyrirtæki borga smánarverð fyrir raforku og að því megi breyta? Hefur hann ekki áttað sig á því að aðeins lítill hluti af arðsemi sameiginlegra auðlinda kemur í hlut almennings? Hvert liggur flóttaleið þeirra auðmanna sem myndu flýja land að mati Ásgeirs ef skattar á þá yrðu hækkaðir? Hvar eru fjármagnstekjur lægri en á Íslandi?
Það er af nógu að taka ef út í það er farið.
Það vekur undrun mína að fræðimaður við Háskóla Íslands skuli sýna svo gagnrýnislausa meðvirkni í umræðu um skattamál eins og lesa má út úr viðtalinu við Ásgeir Jónsson.
En mogginn fékk eitthvað fyrir sinn snúð.