Óvenju slakir formenn

Formenn stjórnmálaflokkanna eru heilt yfir óvenju slakir stjórnmálamenn. Flestir urðu þeir formenn vegna upplausnar í flokkum sínum, sumir án þess að hafa ætlað sér það. Þannig tók Bjarni Benediktsson við sjálfstæðisflokknum úr rústum Hrunsins af Geir H. Haarde. Sigurður Ingi Jóhannsson tók við framsókn eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá vegna spillingar. Óttarr Proppé tók við Bjartri framtíð eftir að Guðmundur Steingrímsson hafði verið flæmdur í burtu. Logi Einarsson varð óvart formaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Oddnýjar Harðardóttur í kjölfar síðustu kosninga.  
Eina undantekningin á þessu er Katrín Jakobsdóttir sem var kjörin formaður Vinstri grænna eftir að fyrrverandi formaður tilkynnti með góðum fyrirvara að hann hygðist draga sig í hlé. Staða Katrínar er mjög sterk og vinsældir hennar eru þvert á pólitískar flokkslínur. Samkvæmt könnunum hefur Katrín ítrekað mælst vinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem flestir bera mikið traust til. Allir hinir eru neyðarformenn með pungapróf í stjórnmálum. Þeir ráða illa við verkefni sín eins og endurspeglast í rótlausu stjórnarfari landsins.
Kannski ættu kjósendur að pæla aðeins í þessu?