Ekkert annað en skandall

„Stjórn Framtakssjóðsins og starfsmenn hans eru meðvitaðir um þá ábyrgð sem fylgir því að ráðstafa fjármunum lífeyrissjóðanna, sem eru almannafé. Markmið reglnanna er að stuðla að góðum starfsháttum og samskiptum.“
Úr siða- og samskiptareglum um Framtakssjóðs Íslands.

Framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands fékk 20 milljónir í aukagreiðslur í fyrra. Það er til viðbótar þeim tæplega 50 milljónum sem hún hafði í laun og hlunnindi á árinu. Samkvæmt því sem haft er eftir stjórnarformanni sjóðsins í Fréttablaðinu í dag (bls. 16) eru þessar 20 milljónir ætlaðar „… til að hvetja hana til þess að starfa áfram hjá sjóðnum".
Framtakssjóður Íslands er að stærstum hluta í eigu launafólks í gegnum lífeyrissjóði þeirra. Landsbanki Íslands á einnig 17% hlut í sjóðnum. Með því að færa 20 milljónir úr sjóðnum inn á reikning framkvæmdastjórans er því verið að rýra hlut lífeyrissjóðanna og þar með launþega. Þessar 20 milljónir verða ekki ávaxtaðir í þeirra nafni og munu aldrei verða greiddir út til launþega í formi lífeyris í neinni mynd. Það er mikið vafamál hvort bónusgreiðslur af þessu tagi séu löglegar. Á það verður að láta reyna. Hvað sem því líður þá er 20 milljón króna greiðslan til framkvæmdastjórans siðlaus með öllu. Það er vandséð hvernig stjórn Framtakssjóðs Íslands getur setið áfram eftir þetta og enn síður framkvæmdastjórinn fyrir að hafa tekið við þessum greiðslum.
Þetta er ekkert annað en skandall.