Minna fúsk, minna drasl ...

Árið 2010 var lögum um dómstóla breytt til að koma í veg fyrir að ráðherrar skipuðu dómara pólitískt og án faglegs mats á hæfi þeirra eins og áður hafði viðgengist. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra sjálfstæðisflokksins, hefur nú ákveðið  að hunsa mat sérstakrar dómnefndar um skipan dómara og leggja þess í stað til að aðrir, henni þóknanlegir, verði dómarar í Landsrétti. Með þessu vegur ráðherrann að sjálfstæði dómstóla líkt og kemur fram hjá formanni dómnefndarinnar .
Þetta er grafalvarlegt mál og það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að ráðherrann nái vilja sínum og sjálfstæðisflokksins fram í þessu máli.
Það verður að teljast afar ólíklegt að dómsmálaráðherrann hafi lagt í þessa vegferð án þess að vera búinn að tryggja sér stuðning við málið í þinginu, þ.á.m. ráðherra og þingmanna Bjartrar framtíðar. „Minna fúsk, minna drasl og minna lélegt þýðir meiri Björt framtíð“, sagði frambjóðandi flokksins nokkrum dögum fyrir kosningar í haust. Hún situr nú á þingi og grætur örlög sín. Hvað ætlar hún og aðrir þingmenn Bjartrar framtíðar að gera í þessu máli? Ætla þeir að standa vörð um dómstóla landsins eða styðja aðför sjálfstæðisflokksins að þeim?
Það þarf bara einn úr stjórnarliðinu til að stöðva málið.
Minna fúsk, minna drasl, minna lélegt …