Samkvæmt starfsáætlunum hafa þing-, þingflokks- og nefndardagar Alþingis verið að meðaltali á bilinu 110-120 á hverju ári undanfarin ár. Starfsáætlun þingsins byggist að nokkru á gamaldags viðhorfum um annir þingmanna í kjördæmum og búskap. Þessu þarf að breyta.
Þingmenn eiga mun auðveldara nú en áður með að nálgast kjósendur og almenning í landinu. Tæknin og samgöngur bjóða upp á það. Þingið á heldur ekki að þurfa að laga sig að atvinnuháttum einstakra þingmanna, sauðburði, göngum eða vertíðum.
Þingmenn ættu að hafa frumkvæði að því að breyta starfsháttum þingsins þannig að þingið starfi lengur en það gerir. Slíkt myndi styrkja þingræðið og efla lýðræðið í landinu á kostnað ráðherraræðis. Fátt gleður ríkisstjórn og ráðherra meira en þegar þingið er heima.
Það þarf að auka vald þingsins.