„Það er miður að ótímabær umræða fór af stað áður en þessar upplýsingar lágu fyrir með þeim óþægindum fyrir alla sem það hefur í för með sér fyrir hlutaðeigandi.”
Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra
Menntamálaráðherra segir að brýnt sé að sameina framhaldsskóla en honum finnst hins vegar óþægilegt og miður að um það sé rætt utan ráðuneytisins. Honum finnst ótímabært að ræða málið við þing og þjóð þar til hann sjálfur hefur tekið ákvörðun um sameiningar.
Menntamál varða framtíð ungs fólks og eru forsenda þróunar samfélagsins. Menntamál snerta með beinum hætti hverja einustu fjölskyldu í landinu. Menntamál eru ekki einkamál einstakra ráðherra hverju sinni og mega aldrei verða það. Um þau mál verður að fara fram frjó og opin umræða í samfélaginu, innan sem utan þings.
Vonandi mun þingið ná menntamálunum úr klóm ráðherrans áður en illa fer.