„Nefndin ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún getur alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.“
Ofangreind ummæli Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, eru bæði ótrúleg og alvarleg frá mörgum hliðum litið.
Meginhlutverk Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum er að sjá til þess að efnahagsstefna stjórnvalda nái fram að ganga, svo framarlega sem hún ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Þannig ber Seðlabankanum að grípa til ráðstafana ef hann metur það þannig að stefna stjórnvalda ógni efnahag landsins. Meðal þeirra aðgerða sem bankinn getur gripið til í þessu sambandi er að stýra vöxtum, hækka þá eða lækka í þeim tilgangi að auka peningamagn í umferð eða draga úr því. Með sama hætti geta stjórnvöld haft áhrif á vaxtastigið með því að hækka eða lækka skatta, taka peninga úr umferð eða auka peningamagnið.
Vextir eru ákvarðaðir af sérstakri Peningastefnunefnd sem skipuð er til 5 ára í senn.
Það er þessi nefnd sem fjármálaráðherra vill að taki „á sig rögg“ og „lækki vextina myndarlega".
Það er fáheyrt að ráðherra, hvað þá fjármálaráðherra vestræns lýðræðisríkis, hvetji Seðlabanka til að leggja til hliðar faglegt mat á efnahagsmálum og stilli vexti af samkvæmt óskum um myndarlega lækkun og sjá svo til hvað gerist. Það er engu líkara en að fjármálaráðherra telji að Peningastefnunefnd nenni ekki að lækka vexti, því þurfi hún að hrista af sér slenið og taka á sig rögg.
Með ummælum sínum vegur fjármála- og efnahagsráðherra að sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Ráðherrann hvetur bankann til að fara út í efnahagslega tilraunastarfsemi, stunda fúsk, hann gerir ákvarðanir sem teknar eru á vegum bankans tortryggilegar og hann vegur að störfum starfsmanna bankans og embættismanna.
Vonandi verður ráðherrann látinn svara fyrir þessi makalausu ummæli sín.