Í þættinum Vikulokin í morgun var m.a. rætt um Vaðlaheiðargöng. Umræðan af hálfu þáttastjórnanda og viðmælenda hans var í grunninn um tvennt hvað göngin varðar. Annars vegar að framkvæmdin hefði verið tekin fram fyrir aðrar framkvæmdir í samgönguáætlun (og þar af leiðandi tafið þær) og hins vegar að ætt hefði verið af stað í verkið nánast án undibúnings. Hvort tveggja er rangt.
Vaðlaheiðargöng hafa ekki haft nein fjárhagsleg áhrif á aðrar vegaframkvæmdir í landinu. Göngin eru ekki á fjárlögum. Ríkið hefur ekki sett eina krónu í framkvæmdirnar. Ríkið hefur aðeins sett hlutafé í hlutafélagið sem sér um framkvæmdina, enda á ríkið tæpan helming í félaginu (átti meirihluta til ársins 2013). Ákvörðun um að fara í þessa framkvæmd byggðist ekki síst á því að umferð um göngin er nægilega mikil til að standa undir kostnaði við þau sem ekki á við um flestar aðrar framkvæmdir.
Aðdragandi og undirbúningur framkvæmdanna stóð yfir í ríflega 20 ár áður en hafist var handa við verkefnið. Alþingi tók sér góðan tíma til að fjalla um og afgreiða nauðsynleg lagafrumvörp vegna framkvæmdanna sem samþykkt voru með góðum meirihluta þingmanna eins og t.d. má sjá hér og hér.
Það er ekki nema von að opinber umræða um Vaðlaheiðargöng sé á villigötum þegar lítið er látið með staðreyndir málsins.
Myndin er tekin af ÚA -bryggju yfir í Vaðlaheiði þaðan sem gufan af heitu vatni úr göngum liðast upp í endalausu logninu hér nyrðra.