Í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika Seðlabankans er m.a. bent á að efnahagslífinu geti stafað hætta af bættu aðgengi að erlendum lánamörkuðum ef ekki verði gripið til ráðstafana. Í ritinu hvetur Seðlabankinn til þess að Alþingi setji lög sem komi í veg fyrir að þeir sem hafi tekjur í íslenskri krónu eða séu eignalitlir geti skuldsett sig í erlendri mynt. Hinir fá að gera það sem þeir vilja.
Það er rétt hjá Seðlabankanum að efnahagslífinu getur stafað hætta af því ef skuldsetning er í annarri mynt en krónu, þ.e. þeirra sem hafa tekjur í krónum. Það þekkjum við frá fyrri tíð. Þetta undirstrikar samt betur en margt annað ókosti þess fyrir allan almenning að þurfa að notast við verðlitla, óstöðuga örmynt í örhagkerfi.
Í stuttu máli er Seðlabankinn að hvetja til þess að allir þeir einstaklingar, heimili, fyrirtæki og sveitarfélög sem hafi tekjur sínar í íslenskri krónu og/eða eiga ekki nægar eignir til að verja sig gagnvart krónunni verði bannað að taka erlend lán á betri kjörum en íslenskar fjármálastofnanir bjóða. Hinir sem eru með laun í erlendri mynt eða eru í aðstöðu til að greiða sér laun í erlendri mynt og/eða eigi miklar eignir verði hins vegar frjálst að gera hvað sem þeir vilja í þessum efnum.
Í enn styttra máli: Á meðan þeim efnameiri verði frjálst að haga málum sínum að vild verði almenningur áfram læstur í höftum krónunnar. Almenningur verður fluttur úr einum höftum í önnur á meðan höftum er létt af öðrum.
Um þessi mál má m.a. lesa á bls. 3, 4, 5, 9, 10 og 12 í Fjármálastöðugleikanum.
.