Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af laxeldi í sjó

Viðtal við atvinnuvegaráðherra í Kastljósi kvöldsins um laxeldi í sjó og viðhorf hennar til málsins ætti að duga til að kveikja allar viðvörunarbjöllur hjá þeim sem láta sig málið varða.
Ráðherrann og ríkisstjórnin gera engar athugasemdir við að erlendir fjárfestar fénýti takmarkaðar og sameiginlegar auðlindir okkar. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að takmarka fjölda og umfang laxeldis í sjó en ætlast til þess að erlendu aðilarnir sýni ábyrgð. Ríkisstjórnin hefur engar hugmyndir um það hvort eða þá hvernig eigi að koma í veg fyrir að framandi eldisfiskar í íslenskri náttúru blandist náttúrulegum stofnum og því síður hvernig á að bregðast við sjúkdómum eða mengun sem af starfseminni hlýst. Ráðherrann sagðist hafa lítið svigrúm til að grípa inn í það sem þegar hefur gerst varðandi sjóeldið en fabúleraði svo um eitthvað sem mætti hugsanlega og kannski gera í framtíðinni. Svo mætti lengi áfram telja.
Atvinnuvegaráðherrann leggur hins vegar mikla áherslu á að laxeldisfyrirtæki greiði auðlindagjald af nýtingu takmarkaðra auðlinda, talar jafnvel um uppboð á laxeldisleyfum í fjörðum og flóum. Ekkert gjald, hversu hátt sem það verður, mun geta bætt það tjón á lífríki hafsins sem við blasir sem mun hljótast af fullkomnu stefnuleysi stjórnvalda í málaflokknum. Í því samhengi er auðlindagjald algjört aukaatriði. Aðalatriðið er að stjórnvöld hafi stjórn á því sem er að gerast í uppbyggingu laxeldisstöðva víða um land. Það er lítil von til þess að svo verði með núverandi ríkisstjórn.
Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af laxeldi í sjó.