Laxeldi í sjó er afar umdeilt enda getur það auðveldlega haft mikil og óafturkræf áhrif á lífríki hafs og vatna. Samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunar þola þeir firðir sem stofnunin hefur lagt mat á allt að 125 þúsund tonna framleiðslu á laxi. Talið er að burðarþol íslenskra fjarða geti verið nálægt 200 þúsund tonna framleiðslu á eldislaxi í sjó.
Talið er að 10 þúsund tonna framleiðslu á laxeldi í sjó fylgi úrgangur eða mengun sambærilegt á við 150 þúsund manna byggð. Mengun frá 125 þúsund tonna framleiðslu væri þá á pari við það sem tæplega 2ja milljóna manna samfélag skilaði frá sér og 200 þúsund tonna framleiðsla þá á við 3ja milljóna samfélag. Þá á eftir að taka tillit til þeirrar hættu sem augljóslega stafar af sjóeldi á villta fiskistofna sem er óafturkæft. Sjóeldi er því atvinnugrein sem hefur gríðarleg áhrif á umhverfi sitt frá mörgum hliðum.
Við Bjarni Jónsson höfum lagt fram fyrirspurn á þingi til umhverfis- og auðlindamálaráðherra þar sem við köllum eftir svörum við ýmsum spurningum varðandi laxeldi í sjó og afstöðu ráðherra til málsins. Bjarni hefur svo lagt fram aðra athyglisverða fyrirspurn fyrir ráðherrann um sama mál.
Vonandi líður ekki langur tími þar til ráðherrann svarar og afstaða núverandi stjórnvalda til þessara mála liggur fyrir.