Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur í síðustu könnunum mælst ýmist stærsti eða næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi frá kosningum líkt og Píratar, Björt framtíð og Viðreisn. Samfylkingin og Framsókn virðast vera að bæta lítillega við sig.
Vinstri græn bættu verulega við sig fylgi sl. vor í kjölfar þess að hafa tekið mjög ákveðið á spillingarmálum tengdum Panamaskjölunum. Hreyfingin fékk 16% fylgi í síðustu kosningum og bætti nokkuð jafnt við sig yfir landið. Vinstri græn eru nú stærst í Reykjavíkurkjördæmi norður, kjördæmi Katrínar Jakobsdóttur, formanns hreyfingarinnar.
Málefnaleg staða Vinstri grænna er sterk og fyrir það er hreyfingin trúverðug eins og kom best fram í stjórnarmyndunarviðræðunum í haust. Flestir flokkar hlupu þá frá kjarnastefnu sinni (þeir sem á annað borð höfðu slíkan kjarna) eða jafnvel köstuðu sínum helstu málum á bálið fyrir stjórnarsetu. Vinstri græn drógu hins vegar línuna við tekjuöflun og uppbyggingu á innviðum samfélagsins og voru ekki tilbúin að fórna því. Fyrir það mátti hreyfingin þola illt umtal frá öðrum flokkum sem jafnvel vildu meina að sú ríkisstjórn sem á endanum varð til væri á ábyrgð Vinstri grænna!
En kjósendur láta ekki blekkjast.
Fylgisaukning Vinstri grænna er byggð á sterkri málefnalegri stöðu hreyfingarinnar en ekki síður vegna þess að hreyfingin hefur áunnið sér traust almennings undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.
Traust skiptir miklu máli í stjórnmálum.