Þetta er mjög góður pistill hjá ritstjóra Kjarnans. Staða sjálfstæðra og óháðra fjölmiðla á Íslandi er mjög veik. Fjölmiðlar sem eru háðir pólitískum og viðskiptalegum hagsmunum eigenda sinna eru ráðandi og áhrif þeirra gríðarleg.
Mér vitanlega hafa ekki verið gerðar athugasemdir við eignarhald og tengsl fjármálaráðherra á fjölmiðlum sem fyrirtæki í hans eigu gefa út. Það er ekki að sjá á fátæklegum upplýsingum um hagsmuni ráðherrans á heimasíðu Alþingis að hann hafi selt eða losað um eignarhald sitt á fyrirtækinu.
Ritstjórnarstefna sumra tímarita Útgáfufélagsins Heims hf. er að fjalla um pólitísk málefni, ekki síst efnahagsmál frá ýmsum hliðum. Fjármálaráðherrann útlistaði t.d. fyrir nokkrum dögum áform sín um einkavæðingu bakanna í einu tímarita sinna. Ritstjórnarstefna þess tímarits er m.a. „… að miðla fróðleik sem nýtist forystumönnum í atvinnulífi og stjórnmálum í störfum þeirra.“
Fjármálaráðherrann notar tímarit sitt í pólitískum tilgangi. Hann vísar öðrum fjölmiðlum á blaðið sitt og vekur athygli auglýsenda á fyrirtækinu sínu með því að auka vægi þess í krafti embættis síns. Tímaritum sínum beitir ráðherrann miskunnarlaust í pólitískum tilgangi, bæði með eigin skrifum, föstum pennum af ysta hægrivæng stjórnmálanna ásamt umfjöllun um fyrirtæki og einstaklinga sem tengjast ráðherranum og viðskiptafélögum hans. Benedikt Jóhannesson er í blússandi einkabisness í krafti þess að vera fjármálaráðherra. Enda er fátt til að stoppa hann og fáir ef nokkrir gera athugasemdir við framgöngu hans. Það er m.a. af þessum völdum sem frjálsir og óháðir fjölmiðlar eiga erfitt uppdráttar.
Þegar ráðherrar eiga fjölmiðlafyrirtæki, tengjast þeim með einhverjum hætti, að ekki sé talað um að þeir noti þau í pólitískum tilgangi – þá er það pólitísk spilling.
Mynd: Heimur.is