„Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti.“
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra er ágætur rithöfundur og vel skrifandi. Sjálfur hef ég lesið smásögur hans og pistla í tímaritum og haft gaman af.
Fjármálaráðherra skrifar reglulega pistla á heimasíðu fyrirtækis hanssem gefur út nokkur tímarit sem og bækur ráðherrans.
Í nýlegum pistli á heimasíðu fyrirtækisins segir ráðherra með skemmtilegum hætti frá myndun ríkisstjórnarinnar og sínum fyrsta ríkisráðsfundi. Ég geri ráð fyrir að pistillinn sé meira til gamans skrifaður en hitt og jafnvel eitthvað færður í stílinn eins og gengur.
Ég er þó hugsi yfir lýsingu á fyrri fundi ráðherrans með núverandi forseta sem vitnað er til efst í þessum pistli. Það er að mínu mati ekki eðlilegt að forystufólk í stjórnmálum eigi slík samskipti með „tilheyrandi plotti“. Um hvað ræddi formaður Viðreisnar og núverandi fjármálaráðherra við verðandi forsetaframbjóðanda? Um hvað var plottið? Bauð talsmaður Viðreisnar frambjóðandanum stuðning í formi jákvæðrar umfjöllunar í tímaritum Heims? Studdi núverandi fjármálaráðherra, fjölskylda hans eða fyrirtækið Heimur, forsetaframbjóðendann með peningaframlögum?
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, gerði forseta Íslands engan sérstakan greiða með þessum pistli sínum. Hann gerði íslenskum stjórnmálum heldur ekki neitt gagn með því að fara fram með þeim hætti sem hann gerði.
Það er brýnt að fjármálaráðherra útskýri frekar hvernig samskiptum hans, fjölskyldu hans og fyrirtækis var háttað hvað þetta varðar.
Munum að æ sér gjöf til gjalda.