Þetta er hárrétt hjá ritstjóra Kjarnans – Leiðrétting er þjóðarskömm.
Þessi ótrúlega aðgerð ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og framsóknar verður æ brjálæðislegri eftir því sem frá líður og fleiri upplýsingar um hana koma fram. Og enn vantar talsvert upp á það. Þessi aðgerð jók ójöfnuð í landinu. Með henni voru gríðarlegir fjármunir færðir til þeirra best settu á kostnað hinna sem verr stóðu. Fá dæmi, ef nokkur, eru um viðlíka dellu í íslenskri stjórnmálasögu eða aðra eins sóun á sameiginlegum fjármunum okkar allra. „Leiðréttingin" var ekki gerð með almannahagsmuni í huga. Hún þjónaði mest og best ríkasta og tekjuhæsta hópi landsmanna og kom verst niður á þeim helmingi sem minnst hefur.
Það verður varla undan því komist að Alþingi láti rannsaka hvað raunverulega bjó að baki þessari geggjuðu efnahagsaðgerð sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Þeir sem að henni stóðu og þeir sem bera á henni ábyrgð verða að svara þingi og þjóð því hvað það var sem rak þá út í þessa vitleysu. Þeir verða að útskýra hvers vegna þeir afhentu sérvöldum hópi landsmanna tugi milljarða úr ríkissjóði og þeir verða að axla ábyrgð á afleiðingunum sem koma verst niður á þeim sem „leiðréttingin“ bitnaði mest á.
Nú reynir á Alþingi.