Nú þegar fyrsti dagur nýrrar ríkisstjórnar (reyndar bara hálfur) er að kvöldi kominn er þetta helst að frétta úr hennar herbúðum:
1. Jón Gunnarsson, nýr samgönguráðherra sjálfstæðisflokksins, gefur lítið fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans hvað varðar samráð um lausn á deilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hann sér bara eina lausn og stefnir ótrauður á hana.
2. Páll Magnússon, nýr þingmaður sjálfstæðisflokksins, segir Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hafa niðurlægt Suðurkjördæmi með tillögu sinni um ráðherraskipan fyrir flokkinn. Hann er óánægður með ráðherraliðið.
3. Þorsteinn Víglundsson, nýr ráðherra Viðreisnar, segir lítið að marka stjórnarsáttmálann varðandi það að ekki verði miklar kerfisbreytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Samningurinn sé opinn um þau mál.
4. Brynjar Níelsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, er óánægður með það sem hann kallar óþarfamál og gælumál samstarfsflokkanna í stjórnarsáttmálanum. Hann er líka óhress með ráðherralið flokksins en styður þau þó.
5. Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og nýr heilbrigðisráðherra, gerir ekki athugasemdir við að forsætisráðherra sinn hafi verið einn af fjórum ráðherrum Evrópu sem ljóstrað var upp um í Panamaskjölunum.
6. Elliði Vignisson, bæjarstjóri sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum (sem er ígildi ráðherradóms), er bæði óánægður með ráðherraval formanns flokksins og sömuleiðis með ríkisstjórnina í heild sinni. Segir þetta ekki sína óskastjórn.
Um það erum við Elliði sammála.
Fyrsti heili dagur ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins gæti svo orðið á morgun.