„Algengt var að stjórnarmenn, forstjórar eða þeir sem áttu samkvæmt samningi rétt á að kaupa hlutabréf á fyrirfram ákveðnu gengi færðu þennan rétt sinn til aflandsfélaga. Markmiðið með því var að hlutabréf færu á sem lægstu gengi frá Íslandi og inn í aflandsfélagið, en þannig mátti komast hjá því að greiða fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði síðar meir sem og tekjuskatt af viðkomandi kauprétti.“
Skýrsla fjármálaráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.
Því hefur oft verið haldið fram, sérstaklega af hægrimönnum, að há skattprósenta hreki fólk eða jafnvel neyði til að koma peningum sínum í skjól til annarra landa. Enda eru skattar ofbeldi að þeirra mati. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokksformaður sjálfstæðisflokksins, hélt þessu síðast fram í þinginu rétt fyrir jól. „Það er erfitt að ná í þá allra ríkustu. Þeir geta farið til útlanda, og hafa svo sannarlega gert það, til að komast undan sköttum,“ sagði Guðlaugur Þór um það mál.
Fyrir þessu hafa aldrei verið færð haldbær rök enda stenst þetta ekki skoðun. Skýrsla fjármálaráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sýnir reyndar fram á hið gagnstæða. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs væri einstakt á heimsvísu voru þó skattar með því lægsta sem gerðist hér á landi. Fjármagnsskattur var t.d. 10% og var hvergi lægri í samanburðarlöndum. Samt komu menn sér undan því að greiða þennan lága skatt til samfélagsins með því að koma peningum sínum í skattaskjól. Það má því færa góð rök fyrir því að því meira sem menn eiga af peningum þeim mun líklegri séu þeir til að svíkja samfélag sitt um skattinn.
Um það eru ótal nýleg dæmi til.