Þær vikur sem liðnar eru frá kosningum hafa verið hreint afbragð fyrir okkur sem höfum áhuga á stjórnmálum. Svo til daglega hefur eitthvað nýtt gerst sem kallað hefur að pælingar og vangaveltur um möguleika á myndun ríkisstjórnar. Margir stjórnmálamenn sem eru vanir að fara með völd eiga erfitt með að fóta sig í þessu umhverfi. Þeim finnst þeir vera villtir í völundarhúsi og skilja ekkert í því hvers vegna þeir eru ekki leiddir úr villunni og heim í stjórnarráðið. Aðrir virðast njóta stöðunnar og flakka á milli stjórnarmyndunarviðræðna eftir því hvert vindurinn blæs þeim hverju sinni.
Í dag er staðan einhverveginn þannig að þegar þing kom saman í fyrsta sinn frá kosningum kaus það forseta Alþingis einn öflugusta og um leið umdeildast stjórnmálamann landsins og það án mótatkvæða! Steingrímur J Sigfússon var sem sagt þvert á alla flokka og með afgerandi hætti kosinn forseti Alþingis – og hver hefði nú trúað því fyrir nokkrum misserum að sú yrði raunin? Meira að segja mogganum var svo brugðið að það birti nokkuð sæmilega mynd af honum af tilefninu. Fáir eru hins vegar betur að því komnir og færari að takast á við það verkefni í dag en einmitt Steingrímur J hvað sem hver segir.
Fjármálaráðherra minnihlutastjórnarinnar mælti svo fyrir fjárlagafrumvarpi sínu ásamt frumvörpum til tekjuöflunar. Frumvörpin eru nú í umfjöllun þeirra tveggja nefnda sem nú starfa á Alþingi, báðar undir forystu hægrimanna. Önnur þeirra er fjárlaganefnd sem stýrt er af þingmanni sjálfstæðisflokksins. Hin er efnahags- og viðskiptanefnd sem stýrt ef af formanni Viðreisnar. Sá á sem stendur í viðræðum um myndun ríkisstjórnar fimm flokka án sjálfstæðisflokksins. Sem slíkur þarf að eiga náið og gott trúnaðarsamband við þann ráðherra sem ber ábyrgð á frumvörpunum sem í þessu tilfelli er formaður sjálfstæðisflokksins! En sá hefur svo lýst því yfir að hann vilji gjarnan taka aftur upp viðræður við Viðreisn um myndun ríkisstjórnar sem kann að setja hlutina í annað samhengi. Það er sem sagt allt í kross eins og mest getur orðið. En allt getur þetta auðvitað gengið upp og blessast og gerir það vonandi á endanum.
En þvílík gósentíð fyrir pólitíska fíkla eins og mig!