Það má finna athyglisverða grein eftir Kára Stefánsson á visi.is um heilbrigðiskerfið, ekki síst Landspítalann. Í greininni (sem ég er að stærstum hluta sammála) segir Kári m.a.: „Það er líka athyglisvert að hungurvandi heilbrigðiskerfisins á ekki rætur sínar í hruninu. Hann byrjaði 2003 og minnkun á fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu sem hlutfall af landsframleiðslu var hraðari frá 2003 og fram að hruni en eftir hrun. Þetta gerðist á þeim tíma sem þjóðirnar í kringum okkur voru allar að auka fjárfestingu í heilbrigðiskerfum sínum. Hörmungarástand heilbrigðiskerfisins í dag er því ekki afleiðing hrunsins heldur pólitískrar ákvörðunar sem tekin var á Alþingi í miðju góðæri.“
Þetta er hárrétt hjá félaga Kára! Um þetta hef ég margsinnis fjallað á undanförnum árum utan þings sem innan. Um þetta skrifaði Björn Zoëga á heimasíðu Landspítalans í ágúst 2012. Hann benti einnig á að ágætt samstarf hefði verið á milli þáverandi stjórnvalda og stjórn spítalans við að vinna úr Hruninu. Björn birti einnig í einum pistla sinna ágæta samantekt um niðurskurðinn á Landspítalanum sem ágætt er að halda til haga.
Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, skilaði Landspítalanum gjaldþrota út úr góðærinu svokallaða og inn í Hrunið. Spítalinn átti hvorki fyrir launum né lyfjum. Um þetta má m.a. finna tölur í Ríkisreikningi 2009 (bls. 9 og 108 sem dæmi). Og enn hefur þetta lið keyrt Landspítalann í kaf og enn er bygging nýs spítala ekki hafin.
Ríkisstjórn hægriflokkanna sleit öllu samstarfi við stjórnendur Landspítalans strax eftir kosningarnar vorið 2013 og eyðilagði öll framtíðarplön spítalans. Það var gert undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar og Björn Zoëga gekk á dyr. Hann ætlaði ekki að vera sá sem leiddi Landspítalann fram af brúninni fyrir Kristján Þór og félaga.
Það er því hárrétt sem félagi Kári Stefánsson segir, hörmungarástand heilbrigðiskerfisins er ekki afleiðing Hrunsins heldur pólitískra ákvarðana sjálfstæðisflokksins í samstarfi við framsóknarflokkinn og Samfylkinguna.
Þetta ættu kjósendur að hafa í huga í kosningunum í haust.