Fimm þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa nánast borið landráð upp á fjölda fólks. Þar er um sérfræðinga og embættismenn að ræða sem margir hverjir gegna enn embættum á vegum ríkisins og í stjórnarráði Íslands. Aðrir í öðrum ábyrgðarstörfum í samfélaginu. Tveir þeirra sem bornir hafa verið sökum hafa stigið fram og tjáð sig um ásakanirnar, Jóhannes Karl Jóhannesson hæstaréttarlögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson rekstrarhagfræðingur.
En hvaða fólk er þetta sem fimmmenningarnir í fjárlaganefnd bera svo þungum sökum?
Hverjir voru það sem að mati fimmmenninganna „afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati“? Hvaða samningamenn sýndu „undarlegan ótta við kröfuhafana“ og þjáðust af „vanmetakennd gagnvart hátt launuðum lögfræðingaher þeirra“? Hverjir voru það sem sýndu „sérkennilega áráttu - til að gæta hagsmuna viðsemjenda sinna og tryggja að þeir bæru ekki skarðan hlut frá borði“? Hvað heita þeir starfsmenn Seðlabanka Íslands sem „afhentu slitastjórn Kaupþings og Glitnis veðsett húsnæðislán“ þannig að bankinn „rýrði stöðu sín í þágu kröfuhafanna með afar óvenjulegum og fordæmalausum hætti“? Hvað heita þeir sem gengu mjög langt „í að friða kröfuhafa gömlu bankanna“?
Er það ekki verðugt verkefni fyrir fjölmiðla að finna þetta fólk þannig að öllum sé ljóst hverja fimmmenningarnir í umboði stjórnarflokkanna bera svo þungum sökum?
Þetta mál er miklu stærra en svo að hægt sé að afgreiða það sem enn einn Vigdísar- og Guðlaugsbrandarann.