Ábendingar Árna Bjarnasonar, formanns Félags skipstjórnarmanna, og Valmundar Valmundssonar, formanns Sjómannasambands Íslands, um ókosti uppboðs -eða markaðsleiðar í sjávarútvegi eiga fullan rétt á sér. Uppboð á aflaheimildum er ekki leið til að tryggja atvinnuöryggi sjómanna eða fiskvinnslufólks og því síður heilu byggðarlaganna. Markaðurinn hefur aldrei verið vinveittur vinnandi fólki. Það ættu stjórnmálamenn að hafa í huga í þessari umræðu.
Það hefur líka margt verið sagt um uppboðsleiðina sem Færeyingar hafa lagt af stað með, margt af því ekki byggt á rökum. Því mun Högni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja koma til Íslands í næstu viku ásamt tveimur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og funda í Norræna húsinu í Reykjavík laugardaginn 10. september m.a. um sjávarútvegsmálin í Færeyjum og fleiri mál. Vonandi munu sem flestir nýta sér tækifærið sem þá gefst til að hlýða á og ræða við færeysku ráðherrana um þessi mikilvægu mál.