"Nýr forseti tekur við góðu búi enda er hann að taka við keflinu af yfirburðamanni. Þótt Guðni Th. Jóhannesson sé sinn eigin maður og muni setja sinn svip á embættið þarf ekki að velkjast í neinum vafa um að hann getur lært margt af Ólafi Ragnari Grímssyni. Ekki síst þegar kemur að því að treysta eigin dómgreind og innsæi …”
Þannig skrifar hinn ágæti fréttamaður Þorbjörn Þórðarson í leiðara Fréttablaðsins í gær.
Auðvitað er það þannig að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, getur margt lært af forverum sínum í starfi, þó það nú væri. Vonandi mun hann þó ekki ganga í smiðju Ólafs Ragnars Grímssonar eftir dómgreind og innsæi heldur treysta á sjálfan sig í þeim efnum. Enda held ég að það sé lítil hætta á því sem betur fer.
„Eftir hrun varð Ólafur Ragnar Grímsson einskonar holdtekja skjallsins með réttu eða röngu, en svo ákafur hafði forsetinn verið í stuðningi sínum við aukin umsvif Íslendinga erlendis að hann varð að sæta því.“
Guðni Th. Jóhannesson. Skýrsla RNA bls. 171.
Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar er því miður of oft til vitnis um dómgreindarbrest hans og er ekki til eftirbreytni nýjum forseta lýðveldisins.
“Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen.- Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi.”
Skýrsla RNA bls. 178.
Guðni Th. Jóhannesson verður góður forseti.