Þeir eru ekki margir sem finnst það hafa verið góð hugmynd hjá Bretum að segja sig frá Evrópusambandinu og þeim fer fækkandi. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar er komin upp mikil óvissa í breskum stjórnmálum og óljóst hver áhrifin af því verða á það sem eftir er af gamla heimsveldinu.
Það er fjarlægur möguleiki að Bretar hafi nokkurn áhuga á að gera samninga við ESB í anda EES samningsins enda var grundvöllur hans beinlínis það sem Bretar höfnuðu í kosningunum, þ.e. ferðafrelsi og flutningur á vörum og fjármagni milli landa. Það var á þeim grunni sem kjósendur samþykktu að ganga úr ESB, aðallega þó til að hefta för útlendinga. Enn ólíklegra verður að teljast að innan ESB sé vilji til að gera slíkan samning við land sem segir sig úr sambandinu á þessum forsendum.
Eftir kosningarnar er Bretland klofið í tvennt í margvíslegum skilningi. Í fyrsta lagi voru fylkingar andstæðinga ESB og fylgjandi svo til jafn stórar í kosningunum. Í öðru lagi skilur algjörlega á milli kynslóða í afstöðu til ESB, eldri kynslóðin kaus gegn ESB á meðan sú yngri vill vera þar áfram. Í þriðja lagi hafa kosningarnar dregið enn dýpri skil á milli Englands og Skotlands (og reyndar Wales líka) en áður og fannst mörgum þó nóg um.
Það ríkir pólitískt öngþveiti í Bretlandi. Formaður Verkamannaflokksins er „dead man walking“ og nýtur einskis trausts innan sinna raða vegna framgöngu sinnar í þessu máli. Hann er á útleið. David Cameron hefur þótt rismikill stjórnmálamaður en hefur kannski átt sínar bestu stundir í kjölfar kosninganna með því að boða afsögn sína. Þannig stillir hann andstæðingum ESB upp við vegg og gerir aðild Bretlands að kosningamáli og gefur almenningi um leið færi á að segja hug sinn að nýju og þá annað tveggja að staðfesta úrsögnina endanlega eða opna á möguleika á því að hætta við. Verði niðurstaðan sú að aðildarsinnar verði ofan á í þingkosningunum opnast möguleiki fyrir nýja þjóðaratkvæðagreiðslu en það er það sem til þarf til að snúa til baka. Verði niðurstaðan hins vegar sú að andstæðingar ESB sigri í næstu kosningum er Bretland á hraðleið út úr ESB.
Eftir að hafa horft upp á fyrstu afleiðingar ákvörðunar Breta um að segja sig frá ESB er ólíklegt að nokkuð annað ESB -land hyggi á úrsögn. Þegar fram í sækir munu afleiðingarnar koma enn skýrar í ljós og framtíðarsýn Breta utan ESB sömuleiðis. Með því að samþykkja úrsögn hafa Bretar náð að draga fram helstu galla og kosti þess að vera innan ESB og utan. Sú umræða mun væntanlega styrkja bandalagið og auka stuðning við það meðal almennings aðildarríkjanna. Hvað ESB varðar má færa ágætis rök fyrir því að það skipti í raun litlu hvort Bretar fari út eða finni leið til að halda sér inni. Þessi uppákoma er líklegri en hitt til að þjappa öðrum ESB -ríkjum saman og sambandið standi sterkar eftir en áður.
Afstaða stjórnmálaflokka á Íslandi til ESB hefur öðru fremur byggst annars vegar á þröngum sérhagsmunum helstu stuðningsaðila hægriflokkanna og hins vegar á rótgróinni andúð á ESB sem leidd er af eldri kynslóð stjórnmálamanna.
Íslensk stjórnvöld og íslenskir stjórnmálamenn munu þurfa að endurskoða hug sinn til ESB á næstunni út frá því sem nú hefur gerst. Sú endurskoðun þarf að fara fram með heiðarlegum hætti og án fordóma en þó fyrst og síðast með almannahag í huga.
Vonandi eru íslenskir stjórnmálamenn nógu stórir í sér til þess.