Bíladagar á Akureyri

Ég er ekki bílaáhugamaður og hef ekkert vit á bílum. Það hafa verið sagðar sögur af bílaviðskiptum mínum í fjölskyldunni mér til háðungar.
En ég hef áhuga á Bíladögum á Akureyri, þ.e. ég vil að þeir festi sig í sessi sem viðbót við fjölmarga aðra skemmtilega viðburður í bænum. Það er mikill áhugi á bílum og mótorsporti í bænum sem þarf að rækta eins og allt annað. En ég hef líka fullan skilning á því að kvartað sé undan hávaða og látum á bíladögum rétt eins og stundum vill verða á öðrum íþróttamótum og samkomum í bænum. En það er bara mál sem þarf að leysa og er vel hægt að leysa í góðri samvinnu bæjaryfirvalda, lögreglu, íbúa og aðstandenda bíladaga.
Bíladagar eru ekki útihátíð frekar en fjölmörgu önnur íþróttamót sem haldin eru í bænum á hverju ári. Þeir eru ágæt viðbót við það sem fyrir er og sýnir vel þá grósku sem er í samkomuhaldi Akureyringa. Það felst mikið tækifæri í því að sníða af agnúa sem hafa fylgt bíladögunum utan mótsvæðis eins og náðst hefur að gera með aðra viðburði. Það á ekki að vera mikið mál ef í það er farið.
Takist það verða allir glaðir.