Enginn skóli á Íslandi hefur skilað jafn miklum og áþreifanlegum árangri í slysavörnum og Slysavarnarskóli sjómanna. Það eru ekki svo mörg ár síðan alvarleg slys og dauðaslys meðal sjómanna skiptu tugum á hverju ári og minniháttar slys hundruðum ef ekki þúsundum árlega. Nú höfum við upplifað nokkur ár án dauðaslysa til sjós og öðrum slysum hefur stórfækkað. Því má að stærstum hluta þakka stjórnendum og starfsfólki Slysavarnarskóla sjómanna. Vegna skólans hefur orðið mikil viðhorfsbreyting meðal sjómanna til slysavarna sem hefur skilað hinum mikla árangri. Það sama má segja um íslenska útgerðarmenn sem hafa tekið þessi mál föstum tökum á sínum skipum. Með samvinnu þessara aðila hefur náðst árangur í slysavörnum á sjó sem eftir er tekið.
Nú er svo komið fyrir Sæbjörgu, skipi Slysavarnarskóla sjómanna, að hún er ekki lengur sjófær og getur því ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Það gengur ekki og er algjörlega óboðlegt sjómönnum, fjölskyldum þeirra og okkur öllum.
Því skora ég á íslenska útgerðarmenn að sjá til þess nú þegar að þeir tryggi að Slysavarnarskóla sjómanna verði séð fyrir öflugu og góðu skólaskipi til framtíðar, ef ekki með endurbótum á Sæbjörginni – þá með nýju skipi í hennar stað. Ég mun svo safna liði og beita mér fyrir því að íslenska ríkið tryggi eðlilegan rekstur skipsins í kjölfarið.
Það verður létt verk.