„Mat okkar í utanríkisráðuneytinu, sem jafnframt er byggt á stöðutöku helstu sendiskrifstofa Íslands og Íslandsstofu, er að til skemmri tíma hafi ímynd og ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi ekki beðið umtalsverðan hnekki þrátt fyrir talsverða ágjöf.“
Svo segir í svari utanríkisráðuneytisins við spurningu mbl.is um hugsanleg áhrif af birtingu Panamaskjalanna og þeirra hneykslismála sem þeim fylgdu.
„Það var hægt að greina nokkuð neikvæðan tón í umfjölluninni framan af …“ sagði upplýsingafulltrúi ráðuneytisins sem taldi áhrifin þó vera takmörkuð og lítil til lengri tíma litið. Í sama streng tók Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sem taldi umræðuna ekki hafa verið skaðlega. „Við lítum ekki á þetta mál sem hættulegt fyrir orðspor okkar eða ímynd,“ sagði Jón framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Afstaða utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu virðist byggð á óskhyggju einni og voninni um að alþjóðleg umfjöllun um spillingu í ríkisstjórn Íslands sé smámál sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af.
Hjörtur Smárason, sérfræðingur í ímyndarmálum landa og borga, er á öðru máli. „Ísland er orðið lélegur brandari um allan heim. Blaðamenn hlæja. Áhrifafólk í viðskiptum hlær. Leigubílstjórar hlæja. Fólkið úti í sjoppu hlær. Það verður ekki auðvelt að endurheimta traust á íslenskum viðskiptamönnum og íslenskum stjórnmálamönnum. Það verður eingöngu gert með því að taka skýra afstöðu gegn spillingu og kjósa breytingar.“
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa orðið landi og þjóð til ævarandi skammar á alþjóðavettvangi og stórskaðað íslenska hagsmuni. Kjánalegar yfirlýsingar utanríkisráðuneytisins breyta þar engu um.
Við erum aðhlátursefni um allan heim og bætum heldur í brandarann en hitt.