Hópur grunnskólakennara á Akureyri skrifaði athyglisverða grein í vetur um fjárhagsstöðu grunnskóla bæjarins. Í greininni segja kennararnir að þeir sjái „… ekki fram á að hægt sé að sinna hefðbundnu skólastarfi án þess að það komi niður á gæðum þess,” verði að boðuðum niðurskurði til rekstrar skólanna. Það er skoðun þeirra að ekki verði lengra gengið í niðurskurði til grunnskólanna á Akureyri. Verði það gert sé velferð og menntun barna í húfi. Grein sína enda grunnskólakennararnir á að beina orðum sínum til stjórnenda bæjarins: ,,Í ljósi ofantaldra staðreynda er það okkar einlæga trú að þið endurskoðið fjárúthlutun til grunnskóla Akureyrarbæjar, forgangsraðið með menntun og framtíð barnanna okkar í huga með það að leiðarljósi að kennurum verði gert kleift að vinna samkvæmt starfslýsingu kennara með hagsmuni allra nemenda sinna að leiðarljósi og geti gert það vel og af fagmennsku.”
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, skrifaði einnig grein fyrr í vetur um stöðu síns skóla sem vakti mikla athygli. Í greininni lýsir Sigríður Huld fálæti stjórnvalda á málefnum skólans og fjárhagsstöðu. Ráðuneyti menntamála svarar ekki erindum skólameistarans og engin svör fást við því hvort og þá hvenær stjórnvöld muni bregðast við þessum mikla vanda. VMA getur ekki greitt reikninga heldur hrúgast vanskilin upp og ofan á þau háir dráttarvextir. Engir fjármunir eru til að endurnýja búnað eða viðhalda úrsérgengnum tækjum og tólum. Sigríður Huld segir: „Við verðum öll að gera okkur grein fyrir því að svona getur þetta ekki gengið öllu lengur og þegar staðan er farin að bitna á námi nemenda finnst mér að þar með séum við komin algjörlega upp að vegg.“
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, hefur verið ötull við að vekja athygli á stöðu háskólans frá því hann kom þar til starfa. Það gerði hann svo eftir var tekið á ársfundi SFS í apríl og síðar á ráðstefnunni „Sjávarútvegur á Norðurlandi“ sem haldin var í HA síðar þess mánaðar. Því miður eru upptökur af fundunum enn ekki komnar á netið. Þar fór rektor vítt og breitt yfir stöðu skólans, framtíðarhorfur og síðast en ekki síst viðhorf stjórnvalda til Háskólans á Akureyri. Í máli Eyjólfs kom m.a. fram að af þeim u.þ.b. 20 milljörðum sem fara til rekstrar allra háskóla landsins fara aðeins um 130 milljónir í sjávarútvegsnámið fyrir norðan. Viðhorf stjórnvalda kom þó líklegast skýrast fram við afgreiðslu fjárlaga ársins þegar gerð var tillaga um 600 milljóna króna viðbótarframlag til HÍ og HR – en aðeins 10 milljónir til Háskólans á Akureyri.
„Viljum við vera skólabærinn Akureyri?“ spyrja kennarar bæjarins. Það er spurning sem skólayfirvöld bæjarins og stjórnvöld þurfa að svara og það fyrr en síðar.
Fyrir mér er svarið augljóst.