Núll stefna ríkisstjórnarinnar

Í fjögurra ára samgönguáætlun ríkisstjórnar hægriflokkanna er nánast ekki gert ráð fyrir nokkrum nýjum vegaframkvæmdum á NA- og Austurlandi á næstu árum. Samantekið er um að ræða 300 milljónir sem fara eiga í stofn- og tengivegi á þeim árum sem áætlunin nær til. Til að setja þessa upphæð í samhengi má benda á að kílómetrinn af nýjum vegaspotta kostar 30-40 milljónir króna. Umferð um Norður- og Austurland hefur aukist mikið og mun aukast á allra næstu árum vegna aukins ferðamannastraums og annarra atvinnutengdra umsvifa. Vegakerfið á svæðinu ber ekki þá aukningu og þjónar reyndar ekki þörfinni eins og hún er nú.
Á framkvæmdakorti vegagerðarinnar fyrir síðasta ár sést vel hvernig staðan í þessum málum er á landinu öllu. Þetta er stjórnvöldum til skammar. Enn verra er þó sú framtíðarsýn sem dregin er upp í samgönguáætluninni.
Ríkisstjórnin rekur núllstefnu í samgöngumálum.

Comments

Sigurdur Erlingsson's picture

Við Dettifoss hafa í gær verið rúmlega 500 manns, e.t.v. mun fleiri. Með uppbyggðum vegi lengra norður er líklegt að góður hluti þeirra hefði farið norður í Kelduhverfi. Besta gisk núna er að innan við 5% þeirra fari þangað eins og staðan er í dag.

Uppbyggður vegur frá Dettifossi og norður í Ásbyrgi hefði líklega meiri þýðingu fyrir Norðurþing en nokkuð sem er gert á Bakka og mér finnst ótrúlega lítið hafa heyrst í sveitarstjórn Norðurþings.