Gagnslitlar upplýsingar um skattamál formanns framsóknarflokksins

Fljótt á litið vakna fleiri spurningar varðandi skattamál formanns framsóknarflokksins og konu hans en svarað er hér. Hér er um valdar upplýsingar að ræða en ekki skattaleg gögn og því tæplega hægt að draga af þeim miklar ályktanir. Ekki eru lagðir fram ársreikningar Wintris Inc Tortóla félags þeirra og því ómögulegt að átta sig á starfsemi þess. Ekki eru heldur lögð fram skattaleg gögn sem sýna fram á hvort og þá hvernig var gerð grein fyrir stofnun félagsins, sölu á hlutabréfum, söluhagnaður eða ársreikningar Wintris Inc til 2015 þar sem fram ættu að koma tekjur þess og eignir eins og skylt er að gera. Því er svo haldið fram að félagið hafi aldrei verið í skattaskjóli þrátt fyrir að vera skráð á Tortóla. Ég er ekki viss um að allir séu sammála því.
Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu formanns framsóknarflokksins er ekki annað að sjá en að hann og kona hans hafi talið ranglega fram til skatts. Það er útilokað annað en að skattrannsóknarstjóri kalli eftir frekari upplýsingum í ljósi þess sem þegar er komið fram.
Upplýsingar formanns framsóknarflokksins og konu hans eru þó ekki með öllu gagnslausar. Það er langt síðan ég hef séð að þær breytingar sem orðið hafa í skattamálum á Íslandi séu jafn skýrt dregnar upp og hér er gert. Sérstaklega þær breytingar sem snýr að auðugum einstaklingum. Í stuttu máli kemur eftirfarandi fram í yfirlýsingu formanns framsóknarflokksins:

  1. Auðugir á Íslandi greiddu svo til engan fjármagnstekjuskatt fram að Hruni og þar til vinstristjórnin tók við
  2. Auðugir á Íslandi greiddu engan auðlegðarskatt alla tíð þar til vinstristjórnin breytti skattalögum eftir Hrun
  3. Auðugir Íslendingar hafa nú lagt auðlegðarskattinn  niður
  4. Það er athyglisvert að hinir auðugu (í þessu tilfelli a.m.k.) greiddu hvorki tekjuskatt til ríkisins né útsvar til sveitarfélagsins þar til formaðurinn komst í launað starf sem þingmaður

Samantekið: Þetta fólk og aðrir í sambærilegri stöðu greiddu svo til enga skatta fram að Hruni. Þau ferðuðust um samfélagið á kostnað okkar hinna og ætla að gera það aftur.

 

 

Myndin hér að ofan er unnin úr gögnum af heimasíðu formanns framsóknarflokksins.