Mývatn var friðað að lögum árið 1974 og sett á skrá Ramsarsamningsins fjórum árum síðar. Það þýðir að auk friðunarinnar er Mývatn á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg vötn sem skuldbindur okkur Íslendinga til að gera hvað við getum til að koma í veg fyrir að breytingar verði á vistkerfi vatnsins af mannavöldum.
Við stöndum okkur ekki vel í því.
Þvert á móti lítur nú út fyrir að vistkerfi Mývatns stafi veruleg ógn af mannavöldum og því verðum við sem samfélag að axla ábyrgð og snúast vatninu og lífríki þess til varnar. Annað væri ekki aðeins brot gegn skuldbindingum okkar og yfirlýstum markmiðum um friðun og verndun Mývatns, heldur einnig og ekki síður svívirðileg framganga gegn íslenskri náttúru og svæðum sem ekki eiga sér nein lík í veröldinni.
Engin þjóð á þvílíka gersemi sem Mývatn er og sem slík ber okkur skylda til að vernda vatnið, hvað sem það kostar.